16.5.2008 | 18:04
Komið að helgi
Enn og aftur er komin helgi. Það er fáránlegt hvað tíminn líður hratt.
Fyrir 20 árum var ég ólétt, ung og tvítug stúlka. Var að bíða eftir frumburðinum sem fæddist síðan 18 maí og er í dag flottur ungur herramaður sem heillar dömurnar upp úr skónum og fer létt með að vefja mömmu sinni um fingur sér.
Það verður semsagt 28 ára afmæli hjá mér á sunnudginn, tvöfalt afmæli, ekki allir sem eru svo heppnir að eiga tvö börn fædd sama dag með 12 ára millibili ;) prinsessan verður semsagt 8 ára og þau ætla að halda upp á það saman. Þau elska hvort annað útaf lífinu og gera allt fyrir hvort annað.
Verið er að bjóða vinum og ættingjum í boðið og það verður boðið upp á fisk í ofni og meðlæti, jummí gott og hrikalega vinsælt ;)
Ég hafði mig loksins í það að hringja í sonin nr. 2 en hann svaraði ekki :( prufa aftur í kvöld og sé hvað hann segir. Ætla nefnilega að bjóða honum í afmælið og hann hitti fjölskylduna og planið er síðan að ræða aftur við hann og sjá hvort hann sé nú ekki til í að fara að gera eitthvað í sínum málum.
En nóg að gera og mér ekki til setunnar boðið.
Kv. Stína fína
14.5.2008 | 08:09
Hvernig?
Í ósköpunum fer maður að því að hætta að þurfa að vekja börn á morgnana?
Ég er búin að vera í því starfi nú í 20 ár takk fyrir og er orðin þreytt, langar ekki að vera í því hlutverki í 12 ár í viðbót. Vekja og draga börnin út úr rúminu? Nær þetta nokkurri átt? Börn sem oftast nær eru komin upp í rúm fyrir kl. 21 á kvöldin?
Hvernig fer fólk að? Heldur áfram að vekja þau eða hvað?
Æj ég er bara þreytt móðir, kanski ekki skrítið þó börnin séu ekkert auðveld.
Sumir dagar eru verri en aðrir og þetta er verri dagurinn.
Kv. Stína þreytta
13.5.2008 | 17:08
Stundum fer maður að hugsa...
...um það sem maður á ekkert að vera að hugsa um.
Heilinn getur verið skrítinn, maður blokkerar ýmsar hugsanir til að gera ekki útaf við sig og fara yfir um á þessum hugsunum en stundum troða þær sér bara í gegn.
Það gerðist hjá mér áðan, alveg búin að eiga ágætist tíma og ekkert að hugsa um fíkilinn. Svo bara tróð það sér í gegn hjá mér alveg upp úr þurru. Af hverju hefði hann lent í þessu, af hverju ég, af hverju var ég að skilja við pabba hans, hefði það einhverju breytt? hefði hann sloppið þá?
Ef ég hefði gert hlutina öðruvísi og hvað hefði ég átt að gera öðruvísi? Ef að við hefðum áfram búið í Hafnarfirði, hefði hann þá ekki sloppið? Fólk er nefnilega duglegt við að rakka niður Vogana, hér sé bara glæpalýður og handrukkarar. En svo er nú ekki, langt í frá. En neyslufélagi sonar míns kemur úr Hafnarfirði, sá sem hann byrjaði með í þessu rugli öllu og var meira að segja bekkjarfélagi annars þeirra svo það hefur sennilega ekki haft mikið að segja.
Auðvitað á maður ekki að hugsa svona, hugsa að það hefði engu breytt með hvaða leið þeir fóru. Þeir voru báðir í áhættuhóp, annar með þunglyndi og athyglisbrest og er það sá sem er fíkill í dag, hinn með mótróaþrjóskuröskun (já erfitt orð) og á mörkum þess að vera ofvirkur en samt ekki greindur.
En hvaða aðstoð fékk ég fyrir þá í skóla? Enga þótt ég sóttist eftir því. Ég er búin að slást fyrir þessa drengi alveg hægri vinstri í skólakerfinu en skólakerfið brást þeim og mér líka. Ef betur hefði verið tekið á málunum þá hefði kanski allavega annar þeirra sloppið. En ég má ekki hugsa svona en maður verður bitur að þegar ég vissi að hann var að byrja að fikta þá hafði ég samband við skólann til að spyrja hvert maður geti leytað til að reyna að stoppa svona hegðun. Og hvaða svör fékk ég?
ENGIN
Ég fékk engin svör, bara yppt öxlum og sinnuleysið hélt áfram og ég skömmuð hægri vinstri fyrir að hann lærði ekki heima, mætti ekki í skólann og þetta væri allt saman mér að kenna því agaleysið væri algjört. Einmitt algjört agaleysi, ég var næstum eina foreldrið í bænum sem lét börnin mín fara eftir útivistarreglunum. EINA og ég var svo vond mamma að smita síða hina foreldrana og hringja í þá. Djös mamma er þetta, hringjandi í aðra foreldra og heimta að aðrir foreldrar fari eftir útivistarreglunum. En það er ekki þar með sagt að maður sleppi.
En eftir því sem rannsóknir segja og fólk sem þekkir til þá hefur þetta ekkert að segja, það getur hver sem er fallið í þessa gryfju og orðið foreldri fíkils. Allir geta orðið fyrir þessu, ALLIR.
Æj það er bara stundum eins og á svona dögum þar sem ég er hálf lasin og þá spretta upp svona hugsanir.
Mig langar til að hringja í fíkilinn og spyrja hann hvar hann býr, fékk fréttir af því að hann væri bara pirraður og ergilegur ef fólk spurði hann. Vinkona hans hringdi í bróðir hans með þessar áhyggjur og bróðir hans sagði honum að koma sér í meðferð og hætta nú þessari þrjósku. En hann vill það ekki og ég þori ekki að hringja í hann því að ef ég hringi þá pirrast hann sennilega bara á því og hellir sér yfir mig og ég get hreinlega ekki tekið því. Ef hann færi að biðja um að koma heim þá veit hann að kröfurnar eru að fara í meðferð og klárar hana þá eru allar dyr opnar.
En best að skella sér í stuðningshópinn í Foreldrahúsinu og sjá hvort að maður hressist ekki. Alveg bráðnauðsynlegt að drífa sig þangað.
Kv. Stína fína með klikkaðar hugleiðingar í hausnum í dag.
12.5.2008 | 22:04
Góð helgi búin
Ég átti alveg yndislega helgi. Eins og vanalega í góðra vina hópi Húsbílaeigenda um hvítasunnuna. Við höfðum það gott og nutum þess að vera með krakkana í sveitinni. Þau skemmtu sér rosalega vel saman. Enda alveg svakalega margir krakkar með í för með foreldrum eða ömmum og öfum. Alltaf gott að fara með ömmu og afa og ekki verra ef amma og afi eru með í för.
Við vorum með eitt aukabarn, gekk svakalega vel enda náðu öll börnin vel saman og léku sér stanslaust og fannst æðislegt.
Ég gat vel slakað á og geymt skuggana eftir heima og notið mín.
En til að toppa það hvað ég átti góða helgi þá fór ég lasin heim og er með hita núna. En ég er búin í prófum svo ég get slakað á á morgun þegar krakkarnir eru farnir í skólann. Svo er Foreldrahúsið á morgun og ég má ekki missa af því. Það má bara ekki gerast.
Vonandi áttuð þið góða helgi og í góðu veðri líka :) enginn er verri þó hann vökni ;)
Kv. Stína fína
9.5.2008 | 08:30
Hvar býr barnið mitt?
Ég hef ekki hugmynd um það.
Sá að húsið sem hann hefur búið í er farið. Fór í fyrradag frétti ég svo. Svo hvar hann býr, hef ég ekki glóru og langar helst ekki til að vita það ef hann er á einhverjum dópstað
Hef ekki orku í að skrifa meira í dag, alveg búin á því. Ætla að skella mér í sveitaferð með litla frænda og fara svo í útilegu og hafa það næs um helgina. Reyna að gleyma því að barnið mitt býr hvergi.
Kv. Stína fína
7.5.2008 | 19:23
Dagurinn í dag
Einkennist af því að ég svaf í allan dag. Ég vakti fram á nótt, lærði eins og vitfyrringur og fór að sofa um 4. Af hverju gerir maður sér þetta? Lærir langt fram á nótt og er svo dauðþreyttur í prófinu sjálfu. Sumt skilaði sér en annað ekki. Hljóðfræðin skilaði sér svona nokkurn vegin, rúnirnar voru perfect hjá mér, goðafræðin nokkuð góð en málsagan var ekki alveg eins góð. Varð að sleppa sumu. En svona er þetta, hefði frekar viljað taka próf í rekstrarhagfræði í morgun. Kann það upp á 10 og finnst það hrikalega skemmtilegt fag.
En ég kom heim úr prófinu og svaf fram eftir degi, alveg búin á því eftir þessi 3 próf sem ég tók. Svo er bara að bíða til 20 maí og fá útkomurnar. Get ekki beðið svo lengi eftir því hvort að ég hafi klúðrað þessu eða ekki :(
En hvað er Foreldrar Fíkla?
Foreldrar sem eiga börn sem neyta fíkniefna? Hópur fólks sem kemur saman? Eða hvað er þetta?
Foreldrar Fíkla er hópur fólks sem á börn sem eru ætlar að beita sér fyrir hinum ýmsu málum og fá bætt úr þessu úrræðaleysi í þjóðfélaginu.
Ég á tvo syni, báðir beygðu útaf hinni réttu braut og hurfu á braut fíkninnar og neyttu fíkniefna í mismiklum mæli. Sá yngri neytti allra þeirra eiturlyfja sem hann gat (nema kontalgens og þannig efna) og seldi líka. Sá eldri neytti ekki eins harðra efna, reykti meira hass og tók svo spítt um helgar en það var alveg nóg. Þeir bjuggu hvorugur heima enda fengur þeir ekkert að neyta neinna efna á heimilinu.
Ég er svo heppin að eldri sonurinn er búinn að koma sér út úr þessu og ég er svo þakklát fyrir hvern þann dag sem hann er edrú. Hann ákvað það sjálfur að flytja út í sveit til pabba síns, stunda sína vinnu og kúpla sig frá hinu daglega lífi sem hann átti í sínum heimabæ. Það hefur gefist honum vel en hann mætti alveg stunda fundi, fá ráðgjöf og stuðning því ég veit að hann fær enn þröf fyrir að fá sér eina jónu. Hann fær sér stundum í glas með vinum sínum en er hættur að djamma fram undir hádegi eins og han gerði, bara kominn heim á skikkanlegum tíma. En ég er alltaf hrædd þegar hann fer með vinum sínum því ég veit að vinirnir eru að "fikta" við þetta ennþá og ekkert að gera í sínum málum. Það sem ég held að sé að bjarga mínum syni er að hann hefur áhugamál. Hann er aftur byrjaður í hestaíþróttinni, kominn á kaf í keppnir, útreiðar og dúllerí með hestana. Ég er mjög ánægð með það.
Hinn aftur á móti vill bara vera í ruglinu og skilur ekki af hverju ég býðn honum ekki í mat eða hingað heim. Ég hef bara ekki orku til þess því það endar alltaf með ósköpum og svo hef ég tvö yngri börn til að hugsa um og annað þeirra í áhættuhóp og hitt meðvikt með eindæmum, hef áhyggjur af því.
En þetta er langt frá því að vera auðvelt, langt í frá. Dagarnir hjá mér eru sveiflukenndir og enginn dagur eins. Einn daginn er ég orkumikil og geri allt sem mig langar að gera og hinn daginn er ég orkulítil og hreinlega vil bara sofa. Ekki er þetta ástand til að laga þunglyndið hjá mér.
En hvað getur maður gert? Ekki leggjast í kör því að það er það versta sem ég get gert sjálfri mér þó ég leyfi mér það stundum, einn dagur sakar ekki í dúlleríi og leti heima hjá mér. En ekki lengur. Ég veit að það eru ekkert allir sammála mér með soninn að loka svona á hann en þannig er þetta bara, ég höndla þetta ekki og hann veður bara yfir mig. Gerði það um daginn þegar hann heimtaði fartölvuna sína (sem ég var að þrjóskast við að láta hann hafa) og svo fjarstýrða bílilnn sem hann gaf bróður sínum. Vantaði greinilega pening enda er hann lítið sem ekkert að vinna og ekki veiti ég hvað hann fær í laun fyrir það sem hann vinnur.
En ég horfi framá við, stunda Al-anon vikulega og foreldrahúsið aðra hverja viku. Stunda skólann (reyndar komið sumarfrí) og ætla að taka fjarnám í sumar svo ég haldi mér við efnið ;)
Jæja nóg komið af bulli í dag, takk fyrir að nenna að lesa, þið sem lögðuð það á ykkur.
Eigið gott kvöld
Kv. Stína fína
7.5.2008 | 02:57
Blogg
Jæja þá er komið að því að blogga. Hef svosem byrjað áður en alltaf hætt. Ætla samt að sjá hvort að ég geti ekki komið ruglingslegum hugsunum mínum niður blogg þegar hausinn er að springa.
Það er erfitt að vera með hausinn uppfullann af hugsunum sem maður veit ekkert hvað á að gera við.
Ég er móðir tveggja fíkla sem eru innan við tvítugt (ennþá), þetta er hrikalegasta staða sem ég hef lent í. Og veit hreinlega ekkert hvernig ég á að snúa mér í því nema hugsa um sjálfa mig fyrst og fremst. Stunda Al-anon (búin að fara á tvo fundi) og svo Foreldrahúsið sem hreinlega hefur bjargað mér frá algjörri glötun verð ég að segja.
En nóg í bili, kanski meira á morgun, kanski ekki.
Kv. Kristín